Kynningarfundur PGA golfkennaraskólans 18. október

Þann 18. október kl. 20:00 fer fram kynningarfundur um PGA golfkennaraskólann. Á fundinum verður farið yfir uppbyggingu námsins og farið yfir helstu atriði sem lúta að náminu. Við hvetjum alla til að mæta sem hafa áhuga á að kynna sér málið nánar.

Við vekjum einnig athygli á því að fyrsta önnin er öllum opin (sem hafa náð 18 ára aldri og geta lesið og skrifað á ensku). Tilvalið fyrir t.d. aðila sem vilja læra grunnatriðin og geta kennt börnum og unglingum á réttan hátt.

Fundurinn verður haldinn í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum.

Vonumst til að ykkur sem flest!

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir

Haustþing PGA

Agnar Már Jónsson og David Barnwell

Agnar Már Jónsson og David Barnwell

Haustþing PGA á Íslandi fór fram dagana 23.-25. september á Selfossi. Mætingin var góð hjá félagsmönnum en haustþingið hefur verið fastur liður í starfi félagsins á undanförnum misserum. Dagskráin var fjölbreytt og farið var yfir ýmis mál sem koma inn á borð golfþjálfara á Íslandi. PGA kennarar fóru einnig yfir áhugaverða hluti úti á æfingasvæðinu með félagsmönnum.

Þessi viðburður hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem fastur liður í starfi félagsins. Á þinginu eru málin rædd, og nýjungar kynntar. Það er mikill áhugi hjá félagsmönnum að hittast á þessum árstíma, efla liðsheildina og viða að sér enn meiri þekkingu hvað varðar almenna golfkennslu og þjálfun afrekskylfinga.

David Barnwell og Agnar Már Jónsson voru heiðraðir fyrir þeirra framlag til félagsins og golfíþróttarinnar á Íslandi. David er einn af frumherjunum í þessu fagi og var til að mynda einn af þeim sem kom að stofnun PGA samtakanna á Íslandi. David hefur komið við sögu í árangri margra af okkar fremstu afrekskylfingum og hefur á undanförnum árum verið kjölfestan í öflugu afreksstarfi hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Agnar Már var lengi framkvæmdastjóri félagsins en lét af störfum síðastliðinn vetur. Agnar hefur með dugnaði sínum á undanförnum misserum hjálpað félaginu gífurlega og því er félagið á þeim stað sem það er í dag. Við hjá PGA erum þakklát fyrir að hafa þessa tvo aðila með okkur í liði.

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir

PGA golfkennaranám hefst í janúar næstkomandi

Næsti árgangur PGA golfkennaraskólans hefst í janúar 2017 og lýkur í lok árs 2019. Kennt verður eftir nýju kerfi sem ber heitið EELS (European Education Level System) og hefur verið þróað í fimm ár af PGA í Evrópu. Námið byggist upp í þrem hlutum: Tækni, þjálfun/ kennslu og viðskiptahluta.
Fyrsta önnin er opin öllum þeim sem hafa náð 18 ára aldri og geta lesið og skrifað á ensku. Að lokinni fyrstu önninni verða nemendur leiðbeinendur barna og unglinga. Inntökuskilyrði á aðra önn eru forgjöf 7,4 (karlar) og 10,4 (konur). Fyrir sjöttu og síðustu önnina verða nemendur að hafa forgjöf 4,4 (karlar) og 7,4 (konur) ásamt því að skila inn skorkortum (Playing Ability Test) með golfhringjum spiluðum á viðurkenndum mótum þar sem árangurinn þarf að vera hámark +15 (karlar) og +20 (konur) yfir SSS vallar í tveimur hringjum. Viðurkennd mót eru t.d. á mótaröð GSÍ og mót á vegum PGA á Íslandi. Stjórn skólans áskilur sér rétt til að skoða forgjöf umsækjenda á golf.is. Ekki verður hægt að hefja nám á síðustu önninni ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt.

Kynningarfundur verður haldinn 18. október kl. 20.00 í húsakynnum ÍSÍ, 3. hæð

Nánari upplýsingar veitir Andrea Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri PGA á Íslandi, s: 615-9515, netfang: andrea@pga.is

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir

Framkvæmdastjóraskipti hjá PGA á Íslandi

 

pga framkvæmdastjóraskiptiUndanfarin ár hafa PGA samtökin eflst og dafnað svo um munar og eru félagsmenn nú orðnir um 70 talsins. Í ljósi aukins umfangs var orðið nauðsynlegt að ráða inn starfsmann til að sinna öllum þeim fjölda verkefna sem félagið hefur á sínum höndum. Agnar Már Jónsson sem hefur sinnt framkvæmdastjórastarfinu undanfarin 8 ár hefur ákveðið að láta af störfum og í stað hans hefur Andrea Ásgrímsdóttir verið ráðin í starfið.

„Við erum gríðalega ánægð með að þessa ráðningu og aukið samstarf við GSÍ. PGA á Íslandi ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Helstu verkefni á þessu ári er „PGA junior golf“ sem fer á stað í júní, stelpugolfdagurinn, sem hefur slegið í gegn síðustu árin, endurmenntun golfkennara og halda úti metnaðarfullum PGA golfkennaraskóla með hæstu viðurkenningu frá PGA Europe. Andrea hefur mikla reynslu úr golfíþróttinni, hún er menntaður PGA kennari, og það er mikilvægur þáttur í því að leiða öll þessi verkefni. Ég vil fyrir hönd PGA á Íslandi þakka Agnari Má Jónssyni, fyrir frábært starf á undanförnum árum sem framkvæmdastjóri PGA á Íslandi. Með hans aðstoð og fjölda annarra náðist að lyfta starfi PGA á Íslandi á hærri stall“ sagði Hlynur Geir Hjartarson formaður PGA á Íslandi.

“Undanfarin ár hafa verið virkilega skemmtileg og gefandi og það hefur verið heiður að starfa með því frábæra fólki sem stendur að PGA samtökunum.” Segir Agnar Már sem jafnframt er framkvæmdastjóri GKG og mun nú einbeita sér af krafti við innleiðingu á íþróttamiðstöð klúbbsins. “Ég lít á þetta sem frábært tækifæri til að starfa allt árið í umhverfi sem ég hef verið tengd í tugi ára og er spennt fyrir verkefnum komandi tíma.” segir Andrea en auk þess að vera PGA golfkennari hefur Andrea framhaldsmenntun í markaðs- og kynningarmálum og hefur starfað undanfarið á þeim vettvangi, þ.e. að markaðs-, kynningar- og viðburðamálum.

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir

Aðalfundur PGA 2015

Síðastliðinn laugardag, 13. febrúar var aðalfundur félagsins haldinn í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum. Mæting félagsmanna var góð og í ár var ákveðið að bjóða einnig framkvæmdastjórum klúbbana og forseta GSÍ og er stjórnin ánægð með að sjá hversu vel var mætt úr þeim hópi.

Dagurinn byrjaði klukkan 9 um morguninn með fyrirlestri frá Kanadamanninum Liam Mucklow. Hann var með okkur til hádegis og deildi með okkur sinni þekkingu á golfi og golfkennslu.

Eftir hádegið fór svo aðalfundurinn fram og fjölgaði í hópnum. Hlynur Geir Hjartarson, formaður PGA á Íslandi fór yfir það sem hæst bar síðastliðið ár og Agnar Már, framkvæmdastjóri félagsins fór yfir reikningana sem voru samþykktir. Ný stjórn var kosin en Hlynur Geir bauð sig fram til áframhaldandi formannssetu og var kosinn einróma. Aðrir stjórnarmenn eru Andrea Ásgrímsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, Davíð Gunnlaugsson, Helgi Anton Eiríksson Hulda Birna Baldursdóttir og Nökkvi Gunnarsson. Andrea og Nökkvi voru kosin til tveggja ára og hinir til eins árs. Áhugaverðar umræður sköpuðust um það sem framundan er og verður næsta ár án efa spennandi hjá nýrri stjórn.

Í lok fundar voru eftirfarandi verðlaun veitt fyrir árangur á árinu 2015:

PGA golfkennari ársins: Derrick Moore

  • Stigameistarari PGA: Þórður Rafn Gissurarson
  • Kylfingur ársins hjá PGA: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
  • Öldungameistari PGA (50+): Magnús Birgisson

Derrick_kennari_arsinsEftir fundinn var haldið árlegt púttmót félaga og var það Ingibergur Jóhannsson sem bar sigur úr býtum og hlaut fyrir það rammíslenska græna lopapeysu.

Dagurinn endaði svo með því að þátttakendur dagsins borðuðu saman kvöldverð í miðbæ borgarins og héldu þar umræðunum áfram. Það er því óhætt að segja að dagurinn hafi heppnast vel frá byrjun til enda.

 

 

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir