Framkvæmdastjóraskipti hjá PGA á Íslandi

 

pga framkvæmdastjóraskiptiUndanfarin ár hafa PGA samtökin eflst og dafnað svo um munar og eru félagsmenn nú orðnir um 70 talsins. Í ljósi aukins umfangs var orðið nauðsynlegt að ráða inn starfsmann til að sinna öllum þeim fjölda verkefna sem félagið hefur á sínum höndum. Agnar Már Jónsson sem hefur sinnt framkvæmdastjórastarfinu undanfarin 8 ár hefur ákveðið að láta af störfum og í stað hans hefur Andrea Ásgrímsdóttir verið ráðin í starfið.

„Við erum gríðalega ánægð með að þessa ráðningu og aukið samstarf við GSÍ. PGA á Íslandi ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Helstu verkefni á þessu ári er „PGA junior golf“ sem fer á stað í júní, stelpugolfdagurinn, sem hefur slegið í gegn síðustu árin, endurmenntun golfkennara og halda úti metnaðarfullum PGA golfkennaraskóla með hæstu viðurkenningu frá PGA Europe. Andrea hefur mikla reynslu úr golfíþróttinni, hún er menntaður PGA kennari, og það er mikilvægur þáttur í því að leiða öll þessi verkefni. Ég vil fyrir hönd PGA á Íslandi þakka Agnari Má Jónssyni, fyrir frábært starf á undanförnum árum sem framkvæmdastjóri PGA á Íslandi. Með hans aðstoð og fjölda annarra náðist að lyfta starfi PGA á Íslandi á hærri stall“ sagði Hlynur Geir Hjartarson formaður PGA á Íslandi.

“Undanfarin ár hafa verið virkilega skemmtileg og gefandi og það hefur verið heiður að starfa með því frábæra fólki sem stendur að PGA samtökunum.” Segir Agnar Már sem jafnframt er framkvæmdastjóri GKG og mun nú einbeita sér af krafti við innleiðingu á íþróttamiðstöð klúbbsins. “Ég lít á þetta sem frábært tækifæri til að starfa allt árið í umhverfi sem ég hef verið tengd í tugi ára og er spennt fyrir verkefnum komandi tíma.” segir Andrea en auk þess að vera PGA golfkennari hefur Andrea framhaldsmenntun í markaðs- og kynningarmálum og hefur starfað undanfarið á þeim vettvangi, þ.e. að markaðs-, kynningar- og viðburðamálum.

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir

Aðalfundur PGA 2015

Síðastliðinn laugardag, 13. febrúar var aðalfundur félagsins haldinn í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum. Mæting félagsmanna var góð og í ár var ákveðið að bjóða einnig framkvæmdastjórum klúbbana og forseta GSÍ og er stjórnin ánægð með að sjá hversu vel var mætt úr þeim hópi.

Dagurinn byrjaði klukkan 9 um morguninn með fyrirlestri frá Kanadamanninum Liam Mucklow. Hann var með okkur til hádegis og deildi með okkur sinni þekkingu á golfi og golfkennslu.

Eftir hádegið fór svo aðalfundurinn fram og fjölgaði í hópnum. Hlynur Geir Hjartarson, formaður PGA á Íslandi fór yfir það sem hæst bar síðastliðið ár og Agnar Már, framkvæmdastjóri félagsins fór yfir reikningana sem voru samþykktir. Ný stjórn var kosin en Hlynur Geir bauð sig fram til áframhaldandi formannssetu og var kosinn einróma. Aðrir stjórnarmenn eru Andrea Ásgrímsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, Davíð Gunnlaugsson, Helgi Anton Eiríksson Hulda Birna Baldursdóttir og Nökkvi Gunnarsson. Andrea og Nökkvi voru kosin til tveggja ára og hinir til eins árs. Áhugaverðar umræður sköpuðust um það sem framundan er og verður næsta ár án efa spennandi hjá nýrri stjórn.

Í lok fundar voru eftirfarandi verðlaun veitt fyrir árangur á árinu 2015:

PGA golfkennari ársins: Derrick Moore

 • Stigameistarari PGA: Þórður Rafn Gissurarson
 • Kylfingur ársins hjá PGA: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
 • Öldungameistari PGA (50+): Magnús Birgisson

Derrick_kennari_arsinsEftir fundinn var haldið árlegt púttmót félaga og var það Ingibergur Jóhannsson sem bar sigur úr býtum og hlaut fyrir það rammíslenska græna lopapeysu.

Dagurinn endaði svo með því að þátttakendur dagsins borðuðu saman kvöldverð í miðbæ borgarins og héldu þar umræðunum áfram. Það er því óhætt að segja að dagurinn hafi heppnast vel frá byrjun til enda.

 

 

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir

SNAG golf leiðbeinendanámskeið 4. mars

Magnús Birgisson PGA golfkennari

Magnús Birgisson PGA golfkennari

SNAG golf leiðbeinendanámskeið verður haldið föstudaginn 4. mars nk. Kl. 9-15 í Miðhrauni 2 Garðabæ (inniæfingarhúsnæði Golfklúbbsins Odds). Námskeiðið er opið öllu áhugafólki um golfkennslu og útbreiðslu golfsins. Leiðbeinandi verður Magnús Birgisson PGA golfkennari og SNAG master leiðbeinandi.

Skráning og nánari upplýsingar í síma 775-0660 og ingibjorg@hissa.is

Námskeiðið kostar 15.000 krónur. Innfalið í námskeiðsgjaldinu er SNAG kennslubók á íslensku, aðgangur að upplýsinganeti SNAG og morgun- og hádegishressing.

Meira um námskeiðið: Kennt er með Starting New At Golf (SNAG) sem er margverðlaunuð leið við golfkenn

slu og gerir golfkennslu og golfnám auðveldara og skemmtilegra. Í SNAG golfi eru grunnatriðin í golfi eru kennd á einfaldan og skemmtilegan hátt í gegnum leik. SNAG golf er hægt að stunda bæði úti og inni og henta ýmiskonar salir og útisvæði einstaklega vel fyrir kennsluna. Hægt er að kenna nemendum á öllum aldri frá ungum börnum til fullorðinna og fatlaðra óháð líkamlegri getu.

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir

GR auglýsir eftir yfirgolfkennara í Básum

sitelogo

 

 

Laus er til umsóknar staða yfirgolfkennara í Básum.
Yfirgolfkennari Bása mun gegna því hlutverki að sinna golfkennslu fyrir félagsmenn í Golfklúbbi Reykjavíkur ásamt því að halda úti kennslu fyrir aðra kylfinga. Básar er golfæfingasvæði í Grafarholti og þar eru aðstæður til golfæfinga eins og þær gerast bestar.
Golfklúbbur Reykjavíkur er með tæplega þrjú þúsund félagsmenn. Í Básum er að finna eina fullkomnustu golfkennsluaðstöðu landsins, þar er hægt að æfa utandyra allan ársins hring á flóðlýstu æfingasvæði. Þar er einnig að finna upphitað einkakennslurými, þar sem hægt að hafa opnar dyr út á æfingasvæðið.
Nánar má lesa um Bása á netfanginu www.basar.is
Starfssvið:

 • Stefnumótun og markmiðasetning varðandi golfkennslu fyrir félagsmenn GR
 • Ábyrgð á þjónustu við almenna kylfinga á sviði þjálfunar
 • Upplýsingagjöf og samstarf við framkvæmdastjóra og íþróttastjóra GR

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Viðurkennt PGA golfkennaranám
 • Reynsla af sambærilegu starfi kostur
 • Þekking á Flight Scope er mikill kostur
 • Leiðtogahæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
 • Geta til að tjá sig í ræðu og riti
 • Jákvæðni, þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum.

Umsókn skal fylgja greinargóð ferilskrá umsækjanda og kynningarbréf þar sem ástæða umsóknar er tilgreind.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Ingi Rúnar Gíslason Íþróttastjóri Golfklúbbs Reykjavíkur á póstfanginu ingi@grgolf.is.
Umsóknarfrestur er til 26. febrúar 2016 og berast á póstfangið ingi@grgolf.is
Allar umsóknir er farið með sem trúnaðarmál

Posted in PGA, Störf | Lokað fyrir athugasemdir

PGA ráðstefna í Danmörku

JPG_PGA_Island_logoFramundan er spennandi ráðstefna í Danmörku dagana 29. febrúar – 2. mars næstkomandi. Fyrr á þessu ári fóru fjöldi PGA meðlima á þessa ráðstefnu sem haldin er árlega.

Þetta árið eru spennandi fyrirlesarar og til að krydda þetta hefur verið sett upp makaferð fyfir þá sem vilja lengja ferðina.

Smellið hér til að sjá nánari upplýsingar. 

Það er von okkar í stjórn PGA á Íslandi að sem flestir sjái sér fært um að mæta til að þjappa félagsmönnum saman og til að auka á þekkingu okkar.

Posted in PGA | Lokað fyrir athugasemdir