Aðalfundur PGA á Íslandi fór fram laugardaginn 5. febrúar í íþróttamiðstöð GKG og voru 25 félagsmenn mættir til fundarins. Dagskrá helgarinnar hófst þó á mjög áhugaverðum og lærdómsríkum fyrirlestri á föstudeginum með þeim Davide Mori og Marie Jeffrey. Fyrirlestur þeirra hélt svo áfram á laugardeginum. Í kjölfarið fór aðalfundurinn fram þar sem formaður félagsins, Davíð Gunnlaugsson, fór yfir skýrslu stjórnar. Rúnar Arnórsson, framkvæmdastjóri félagsins, fór yfir ársreikning og kynnti fjárhagsáætlun ársins. Fimm PGA meðlimir gáfu kost á sér í stjórn félagsins og eftir kosningu voru það þau Guðjón Grétar Daníelsson, Hallsteinn I. Traustson, Magnús Birgisson og Stefanía Kristín Valgeirsdóttir sem hlutu stjórnarkosningu til tveggja ára. Arnar Már Ólafsson, Davíð Gunnlaugsson, Karl Ómar Karlsson og Snorri Páll Ólafsson voru kosnir fyrir ári síðan til tveggja ára og mynda þessir átta PGA meðlimir því stjórn félagsins árið 2020.
Þrenn verðlaun voru veitt fyrir árið 2021.
Kosið var um kennara ársins þar sem félagsmenn tilnefndu PGA kennara og skipuðu eftirfarandi kennarar 5 efstu sætin (í stafrófsröð):
Arnar Már Ólafsson
Davíð Gunnlaugsson
Heiðar Davíð Bragason
Hlynur Geir Hjartarson
Snorri Páll Ólafsson
Eftir gífurlega spennandi kosningu félagsmanna varð Arnar Már Ólafsson hlutskarpastur með 29% atkvæða, þar sem aðeins tvö atkvæði skildu efsta sætið frá því þriðja. Arnar Már Ólafsson er þar af leiðandi kjörinn PGA kennari ársins 2021.
Matsnefnd félagsins velur PGA kylfing ársins og var Haraldur Franklín Magnús valinn að þessu sinni. Haraldur Franklín var ekki á landinu þar sem hann var að undirbúa sig fyrir tímabilið á Áskorendamótaröðinni.
Að þessu sinni voru tveir kylfingar jafnir í baráttunni um PGA Meistara ársins en sá atvinnukylfingur sem endar á lægsta skorinu í Íslandsmótinu í höggleik hlýtur þá viðurkenningu. Að þessu sinni voru það þeir Axel Bóasson og Hlynur Geir Hjartarson.
PGA á Íslandi óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju með árangurinn!