Eitt af útskriftarverkefnum golfkennaranema í Golfskóla PGA á Íslandi er að skipuleggja og framkvæma golfskóla á Spáni fyrir almenna kylfinga. Þetta var í þriðja sinn sem nemendur Golfkennaraskólans tóku að sér þetta verkefni, en í þessum árgangi voru eftirtaldir nemendur: Árni Páll Hansson (GR), Birgir Leifur Hafþórsson (GKG), Björn Kristinn Björnsson (GK), Cedric Hannedouche (Frakkland), Erla Þorsteinsdóttir (GS), Heiðar Davíð Bragason (GHD), Hlynur Geir Hjartason (GOS), Ingibergur Jóhannsson (NK), Nökkvi Gunnarsson (NK), og Rögnvaldur Magnússon (GBO). Fyrir hönd PGA skólans sem prófdómararar og eftirlitsaðilar voru Magnús Birgisson, Derrick Moore og Úlfar Jónsson.
Auk golfskólans þurftu útskriftarnemar að standast verklegt einkakennslupróf og verja lokaverkefni sín. Námið hefur staðið yfir í 3 ár og var skiljanlega mikil eftirvænting að nú væri þessum áfanga að ljúka.
Alls skráðu 58 kylfingar sig í golfskólann, öllu fleiri en gert var ráð fyrir í upphafi, en mikil eftirspurn var eftir að komast að. Þetta kallaði á nokkra endurskipulagningu frá upphaflegri áætlun og var því hópnum skipt í 6 hluta, þar sem 3 æfðu fyrir hádegi og léku síðan golfhring eftir hádegi, og öfugt. Gekk þetta skipulag mjög vel upp, en gerði það þó að verkum að þeir sem æfðu eftir hádegi voru e.t.v. orðnir orkuminni en þeir sem æfðu fyrir hádegi, enda búin að leika 18 holur um morguninn. Fólk var þó í lang flestum tilvikum mjög ánægt með fyrirkomulag skólans og viðmót og ráðgjöf kennaranemanna. Áhersla var lögð á að þátttakendur fengu sem oftast tækifæri til að leika með kennaranemunum úti á velli og var fólkið mjög ánægt með þá tilhögun að fá ráðgjöf í leikskipulagi og þeim þáttum sem hafa þarf í huga úti á velli.
Golfskólinn fór fram á Costa Ballena sem er að aðal aðsetur golfdeildar Heimsferða, en þar eru aðstæður afar góðar til leiks og æfinga.
Í grófum dráttum var dagskrá skólans og ferðarinnar eftirfarandi:
24. mars
- Koma til Costa Ballena á Hotel Elba um miðjan dag
- Frjálst golf fyrir þá sem vildu
- Upplýsingafundur um kvöldið og afhending golfbols sem allir þátttakendur fengu
25. mars 1. dagur Golfskóla PGA útskriftarnema
- Stöðvaþjálfun í umsjón PGA útskriftarnema (sveifla, pitch, pútt)
- Áhersla á tæknileg grunnatriði (2,5 – 3 klst)
- 18 holur þar sem útskriftarnemar léku nokkrar holur með flestum hollum
26. mars 2. dagur Golfskóla PGA útskriftarnema
- Stöðvaþjálfun í umsjón PGA útskriftarnema. Áhersla á að fylgja eftir þeim atriðum sem lagt var með af stað deginum áður (2,5 – 3 klst).
- 18 holur þar sem útskriftarnemar léku nokkrar holur með flestum hollum
27. mars 3. dagur Golfskóla PGA útskriftarnema
- Stöðvaþjálfun í umsjón PGA útskriftarnema. Sveifla, vipp og pútt (2,5 – 3 klst).
- 18 holur þar sem útskriftarnemar léku nokkrar holur með flestum hollum
28. mars, 4. dagur Golfskóla PGA útskriftarnema
- Stöðvaþjálfun í umsjón PGA útskriftarnema með áherslu á keppnislíka þjálfun.
- Talning í að hitta brautir, vippa og pútta út, pútthringur á æfingaflöt uppá skor.
- 18 holur þar sem útskriftarnemar léku nokkrar holur með flestum hollum
29. mars, 5. dagur Golfskóla PGA útskriftarnema
- Einkakennsla frá kl. 9-12:30. Allir þátttakendur fengu 25 mínútna einkakennslu þar sem dregið var um hvaða kennara þau fengu.
- 18 holur eftir hádegi.
30. mars, 6. dagur Golfskóla PGA útskriftarnema
- Lokamót golfskólans. Texas scramble (4 manna)
- Lokahóf um kvöldið. Verðlaunaafhending og afhending viðurkenningaskjala fyrir þátttakendur.
31. mars
- Frjálst golf
- Brottför til Íslands seint um kvöldið
Dagskráin heppnaðist mjög vel og var skipulag og framkvæmd mjög góð. Fyrsti dagurinn var býsna brattur og var ákveðið að breyta örlítið um áherslur, sem gekk mjög vel upp. Því er óhætt að segja að skólinn hafi verið mjög lifandi þar sem lesið var í viðtökur þátttakendanna og skólinn mótaðist því nokkuð af hópasamsetningunni. Fólk lét í ljós mikla ánægju með skólann og var sérlega ánægt með þá miklu spilakennslu sem það fékk. Þrátt fyrir stóran hóp þá náðist einstaklega góð stemmning og fólk blandaðist mjög vel, enda allir með sömu markmið, að bæta sig og skemmta sér í golfi í góðum félagsskap.
Að mati kennara skólans þá er aðdáunarvert hversu vel þessi árgangur hefur leyst viðamikil verkefni líkt og þetta, sem og Pæjugolfs-verkefnið sem fór fram sumarið 2011. Í hópnum eru ólíkir en öflugir einstaklingar, sem vinna vel saman og leysa vel þau verkefni sem fyrir þau eru lögð.
PGA á Íslandi vill koma á framfæri kæru þakklæti til allra þátttakenda í ferðinni og skólanum, fyrir skemmtilega samveru og jákvætt viðmót allan tímann.
Myndir úr ferðinni er að finn hér
Fyrir hönd PGA á Íslandi
Úlfar Jónsson