Síðastliðinn laugardag, 13. febrúar var aðalfundur félagsins haldinn í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum. Mæting félagsmanna var góð og í ár var ákveðið að bjóða einnig framkvæmdastjórum klúbbana og forseta GSÍ og er stjórnin ánægð með að sjá hversu vel var mætt úr þeim hópi.
Dagurinn byrjaði klukkan 9 um morguninn með fyrirlestri frá Kanadamanninum Liam Mucklow. Hann var með okkur til hádegis og deildi með okkur sinni þekkingu á golfi og golfkennslu.
Eftir hádegið fór svo aðalfundurinn fram og fjölgaði í hópnum. Hlynur Geir Hjartarson, formaður PGA á Íslandi fór yfir það sem hæst bar síðastliðið ár og Agnar Már, framkvæmdastjóri félagsins fór yfir reikningana sem voru samþykktir. Ný stjórn var kosin en Hlynur Geir bauð sig fram til áframhaldandi formannssetu og var kosinn einróma. Aðrir stjórnarmenn eru Andrea Ásgrímsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, Davíð Gunnlaugsson, Helgi Anton Eiríksson Hulda Birna Baldursdóttir og Nökkvi Gunnarsson. Andrea og Nökkvi voru kosin til tveggja ára og hinir til eins árs. Áhugaverðar umræður sköpuðust um það sem framundan er og verður næsta ár án efa spennandi hjá nýrri stjórn.
Í lok fundar voru eftirfarandi verðlaun veitt fyrir árangur á árinu 2015:
PGA golfkennari ársins: Derrick Moore
- Stigameistarari PGA: Þórður Rafn Gissurarson
- Kylfingur ársins hjá PGA: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
- Öldungameistari PGA (50+): Magnús Birgisson
Eftir fundinn var haldið árlegt púttmót félaga og var það Ingibergur Jóhannsson sem bar sigur úr býtum og hlaut fyrir það rammíslenska græna lopapeysu.
Dagurinn endaði svo með því að þátttakendur dagsins borðuðu saman kvöldverð í miðbæ borgarins og héldu þar umræðunum áfram. Það er því óhætt að segja að dagurinn hafi heppnast vel frá byrjun til enda.