Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, hefur unnið sér inn þátttökurétt á Opna breska meistaramótinu sem fer fram á Carnoustie vellinum í Skotlandi 19.-22. júlí.
Haraldur keppti á úrtökumóti í dag á Princes vellinum í Englandi og endaði hann mótið í 2. sæti á 2 höggum undir pari. Einungis þrír kylfingar komust áfram úr mótinu en keppt var samtímis á 4 stöðum í Bretlandi. Tom Lewis frá Englandi endaði efstur á 4 höggum undir pari en hann á að baki einn sigur á Evrópmótaröðinni. Höggi á eftir Haraldi í 3. sæti lenti hinn frægi og sigursæli kylfingur, Retief Goosen frá Suður-Afríku.
Við óskum Haraldi innilega til hamingju með þennan stórkostlega árangur og hlökkum mikið til að fylgjast með honum keppa á móti bestu kylfingum heims eftir hálfan mánuð. Haraldur verður þá fyrstur íslenskra karlkylfinga til að leika á risamóti í golfi!