Golfkennaraskólinn

Golfkennaraskóli PGA á Íslandi var stofnaður á vormánuðum 2006. Þörfin fyrir golfkennaraskóla var orðin mikil en í mörg ár þurftu margir íslenskir kylfingar að treysta á golfkennslu frá ólærðum kennurum. Fyrstu nemendur Golfkennaraskólans útskrifuðust 10. maí 2008. Það voru einungis 13 lærðir golfkennarar í PGA á Íslandi á þeim tíma en frá fyrsta árganginum bættust við 11 golfkennarar. Síðan þá hafa þrír aðrir árgangar útskrifast (síðast árið 2015) og eru nú menntaðir golfkennarar í PGA á Íslandi orðnir 54 talsins.

Markmið Golfkennaraskólans er að veita nemendum góða alhliða menntun sem uppfyllir ströngustu kröfur frá PGA í Evrópu. Skólinn mun útskrifa hæfa golfkennara með alþjóðleg PGA réttindi sem hafa traustan undirbúning undir krefjandi og fjölbreytt störf á markaðnum. Jafnframt mun skólinn undirbúa nemendur til símenntunar þannig að þeir haldi áfram að læra jafnt og þétt að námi loknu.

5. árgangur Golfkennaraskóla PGA á Íslandi hófst haustið 2018 og lýkur að vori 2021. Kennt er eftir nýju kerfi (European Education Level System) sem hefur verið þróað í nokkur ár af PGA í Evrópu. Námið byggist á þrem þáttum:

  •      Kennsla og þjálfun (Teaching and Coaching)
  •      Golfleikurinn (The Game)
  •      Iðnaðurinn (The Industry)

Hér má finna námsskrá EELS 

Námið er þriggja ára lotunám, það hófst í október 2018 og lýkur í maí 2021. Kennt er í fjórum lotum á önn og fer kennslan ávallt fram föstudegi til sunnudags.

 

PGA er alþjóðlegt vörumerki sem stendur fyrir Professional Golfers Association. Námið sem PGA golfkennaraskólinn á Íslandi býður upp á er viðurkennt af PGA í Evrópu og gefur alþjóðleg réttindi.

Comments are closed.