Aðalfundur PGA fór fram í Golfskála GKG, laugardaginn 3. febrúar. Góð mæting var á fundinn en alls mættu um 50 félagsmenn.
Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ hélt erindi fyrir félagsmenn í ríflega klukkustund áður en gengið var til venjulegra aðalfundarstarfa. Góður rómur var gerður að erindi Vésteins.
Stefanía Kristín Valgeirsdóttir fráfarandi formaður PGA flutti skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár, sem reyndist félaginu aðeins þungt í vöfum félagslega, en með ágætum fjárhagslega. Blikur eru á lofti með aðild PGA að CPG og er það eitt af málefnunum sem nýkjörin stjórn mun þurfa að fara yfir.
Rúnar Arnórsson, framkvæmdastjóri fór yfir reikninga félagsins og voru þeir samþykktir af félagsmönnum. Nokkrar umræður urðu um árgjald næsta starfsárs, en tillaga stjórnarinnar var að það yrði óbreytt, 50.000 kr.. Guðjón G. Daníelsson lagði til að árgjaldið yrði lækkað verulega eða í 12.500 kr., en Sigurpáll Geir Sveinsson lagði til að það yrði hækkað í 60.000 kr. Að loknum líflegum umræðum um árgjaldið fór svo að báðir féllu frá tillögum sínum og samþykkt var óbreytt árgjald fyrir komandi starfsár.
Fjórir aðilar létu af stjórnarstörfum þeir Hallsteinn Traustason, Guðjón G. Daníelsson, Stefanía Kristín Valgeirsdóttir og Magnús Birgisson. Í þeirra stað voru kjörin: Andrea Ásgrímsdóttir, Íris Lorange Káradóttir, Margeir Vilhjálmsson og Þórður Rafn Gissurarson. Fyrir í stjórn voru Arnar Már Ólafsson, Grétar Eiríksson, Katrín Dögg Hilmarsdóttir og Björn Kristinn Björnsson.
Að fundarstörfum loknum var leikið golf í Trackman hermum og snæddur kvöldverður.
Viðurkenningar fyrir golfkennara ársins og kylfing ársins voru ekki veittar á aðalfundinum að þessu sinni, en boðað verður til samkomu þar sem þessir verðmætu titlar félagsins verða afhentir.